Flugvallarmálinu vísað frá dómi

RVKflugvollur

Máli sem Reykjavíkurborg höfðaði á hendur íslenska ríkinu varðandi neyðarbrautina svokölluðu var vísað frá dómi í gær. Reykjavíkurborg krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að innanríkisráðherra, fyrir hönd ríkisins, væri skylt að efna grein í samningi borgarinnar og ríkisins frá 25. október 2013 með því að tilkynna um lokun neyðarbrautarinnar.

** Af Vísi.is **

Í kröfu borgarinnar fyrir dómi var þess farið á leit að ríkið myndi efna samninginn innan fimmtán daga frá uppkvaðningu dóms eða ellegar greiða tíu milljónir króna í dagsektir til borgarinnar. Til vara var þess krafist að viðurkennt yrði að ríkið væri skaðabótaskylt vegna vanefnda á samningi aðila.

Ríkið vildi meina að í kröfu borgarinnar fælist ráðagerð um að stefndi yrði knúinn til stjórnvaldsathafna en slíkt fellur utan lögsögu dómstóla. Að auki benti lögmaður íslenska ríkisins á að deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar hafi verið fellt úr gildi sem hafi áhrif á hvort borgin eigi lögvarða hagsmuni vegna samkomulagsins.

Að mati dómsins var krafa borgarinnar ósamrýmanleg ákvæðum laga um meðferð einkamála. Það væri ekki hægt að „krefjast viðurkenningar á tiltekinni skyldu stefndu samkvæmt samningi „að viðlagðri greiðslu dagsekta“.“ Til að krafan yrði dómtæk þyrfti annað hvort að líta á hana sem hreina viðurkenningarkröfu eða kröfu um að ríkið framkvæmi ákveðnar athafnir að viðurlögðum dagsektum.

**

„Þá hefur þessu máli verið vísað frá dómi. Ekki hægt að segja að það komi á óvart miðað við hvernig staðið hefur verið að málum af hálfu meirihluta Pírata, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Samfylkingar. Deiliskipulagið var fellt úr gildi af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 17. desember sl. Fyrir ári síðan var varað við því að svo gæti farið. Meirihlutinn hlustaði ekki á það. Meirihlutinn ákvað að auglýsa deiliskipulagið að nýju með mótatkvæðum okkar í minnihluta. Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vöruðum við því að formsatriði væru ekki uppfyllt. Meirihlutinn hlustaði ekki á það.“ segir Halldór Halldórsson á Facebook síðu sinni.