Vandræðagangur meirihlutans í Reykjavík

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Meirihlutann í borgarstjórn skipa níu borgarfulltrúar af 15. Þessir borgarfulltrúar eru í Pírötum, Samfylkingu, Bjartri framtíð og Vinstri grænum. Í minnihluta eru fjórir borgarfulltrúar í Sjálfstæðisflokki og tveir borgarfulltrúar í Framsókn og flugvallarvinum. Eins og borgarbúar hafa áþreifanlega orðið varir við eru þessum meirihluta mislagðar hendur með margt í rekstri Reykjavíkurborgar.

Vandræðagangur

Nærtæk dæmi er frammistaðan varðandi akstur fatlaðs fólks sem enn er í fersku minni borgarbúa og hin undarlega samþykkt um viðskiptabann Reykjavíkurborgar gagnvart Ísrael. Það var mál sem meirihlutinn neyddist til að taka til baka á aukafundi í borgarstjórn sem við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kröfðumst. Svo er það fjármálastjórnunin sjálf en borgin hefur verið rekin með tapi þetta kjörtímabil sem og kjörtímabilið 2010-2014. Á milli áranna 2014 og 2016 stefnir í að skuldir borgarsjóðs hækki um 30%. Það er skýr ávísun á hækkun álagna á borgarbúa og skuldaaukningu sem velt er á næstu kynslóðir.

Forgangsröðun takmarkaðra fjármuna hefur vægast sagt verið undarleg. Nærtækt dæmi er ákvörðun meirihluta um 170 milljónir kr. í þrengingu Grensásvegar þegar ljóst er að miklu meiri þörf er fyrir betra almennt gatnaviðhald sem og að á sama tíma er verið að skera niður í þjónustu við borgarbúa eins og t.d. eldri borgara í Eirborgum sem ekki fá lengur heitan mat um helgar.

 

Klúður í stjórnsýslunni

Tillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um opnari stjórnsýslu þannig að bókhald borgarinnar verði opnað hafa ekki verið felldar en ekkert gengur að koma þeim í framkvæmd. Þá hefur verið ótrúlegt að fylgjast með vandræðum meirihlutans í málefnum Reykjavíkurflugvallar. Þrátt fyrir ákvæði í samstarfssáttmála meirihlutaflokkanna um að almenningur eigi að hafa meiri áhrif á ákvarðanatöku gildir það ekki að mati meirihlutans um málefni Reykjavíkurflugvallar því ekki er hlustað á raddir almennings í því máli. Og Píratar eru í meirihlutanum en gera ekkert í því að auka lýðræði sem þó er það eina sem skilja má að sé þeirra stefnumál. Þrátt fyrir að ríkið reki miðstöð innanlandsflugs í Vatnsmýri og hafi ekki annan valkost í þeim málum hefur meirihlutinn heimilað framkvæmdir á Hlíðarendasvæði ofan í einni af brautum vallarins og samþykkt deiliskipulagsbreytingar vegna flugvallarins með mótatkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Og svo fór meirihlutinn af stað með málaferli á hendur ríkinu til að fá ríkið til að fjarlægja svokallaða neyðarbraut.

Nú hefur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fellt deiliskipulag flugvallarins úr gildi og dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hefur vísað málaferlum borgarinnar frá dómi. Allt er þetta vandræðalegt fyrir meirihlutann í borgarstjórn svo vægt sé til orða tekið.

 

Fjölgun borgarfulltrúa

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2011 skal fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23. Í forsætisnefnd Reykjavíkurborgar er unnið að undirbúningi þessa lagaákvæðis því margt breytist við þessa miklu fjölgun borgarfulltrúa. Ljóst er að kostnaður mun aukast við launagreiðslur til 23 borgarfulltrúa í stað 15 sem og kostnaðar við að skapa þeim vinnuaðstöðu.

Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum lagst gegn þessari fjölgun og lögðum til í borgarstjórn áskorun til Alþingis um að endurskoða þetta lagaákvæði þannig að borgarstjórn ráði því sjálf hvort borgarfulltrúum verði fjölgað. Því var vísað til forsætisnefndar borgarinnar sem er aðferð meirihlutans til að svæfa málið.

Það er engin trygging fyrir því að vinnubrögð af hálfu meirihlutans í borgarstjórn, eins og hann er samsettur í dag, myndu lagast við fjölgun borgarfulltrúa. Reyndar er það ólíklegt. Hins vegar er það vissa mín að vinnubrögð myndu lagast við að fækka borgarfulltrúum í núverandi meirihluta.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. janúar sl.