Leynd á samskiptum milli ríkis og borgar

RVKflugvollur

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, lagði á borgarráðsfundi í síðustu viku fram svar sitt við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá því 16. júlí, 2015, þar sem óskað var upplýsinga um fundi og samskipti sem formaður borgarráðs og borgarstjóri áttu við innanríkisráðherra eða fulltrúa hans varðandi Reykjavíkurflugvöll, framtíð hans og lokun brauta í aðdraganda þess samkomulags sem undirritað var 25. október 2013.

Í fyrirspurninni var óskað eftir að lagðir yrðu fram í borgarráði minnispunktar, samningsdrög og önnur samskipti sem ofangreindir aðilar áttu vegna þessa.

Engar fundargerðir

Svar borgarstjóra er á 17 síðum. Neðst á fyrstu blaðsíðu svarsins segir orðrétt: „Um samkomulagið liggja ekki fyrir hjá Reykjavíkurborg fundargerðir eða önnur skráð samskipti á milli borgarstjóra eða formanns borgarráðs annars vegar og innanríkisráðherra hins vegar.“

Í svari borgarstjóra kemur jafnframt fram að skrifstofa borgarstjóra og borgarritara hafi spurst fyrir um hvort fundargerðir eða önnur skráð samskipti milli þessara aðila væru varðveitt í innanríkisráðuneytinu en svör hafi ekki borist þrátt fyrir ítrekanir.

Farið með málið sem einkamál

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina lögðu á fundinum í síðustu viku fram svohljóðandi bókun:

Algjör leyndarhyggja ríkti um samskipti ríkis og borgar vegna samkomulags sem undirritað var 25. október 2013 um Rögnunefndina og framtíð Reykjavíkurflugvallar. Svar við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins staðfestir að engar fundargerðir voru skrifaðar um fundi borgarstjóra eða formanns borgarráðs annars vegar og innanríkisráðherra hins vegar í aðdraganda samkomulagsins. Engin minnisblöð hafa varðveist. Ekkert virðist hafa verið gert til að fullnægja lágmarkskröfum um eðlilega stjórnsýslu. Ekki er einu sinni hægt að upplýsa hversu margir fundir voru haldnir vegna þessa og ljóst af því að farið var með þetta mál eins og hvert annað einkamál. Vinnubrögð af þessu tagi eru ekki boðleg. Af þessu má sjá að rík ástæða er til þess að setja ákveðnar og skýrar reglur um upplýsingagjöf til borgarráðs af fundum sem borgarstjóri og formaður borgarráðs eiga við ráðuneyti og opinberar stofnanir. Slík upplýsingagjöf á að vera öllum borgarbúum aðgengileg.

Skylt verði að upplýsa

JuliusVIngvarsson-216x300Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hann hefði lagt fram tillögu í borgarráði á fundinum í júlí í fyrra um að borgarstjóra og formanni borgarráðs væri skylt að leggja fram í borgarráði minnispunkta og aðrar upplýsingar vegna funda sem borgarstjóri og formaður borgarráðs ættu við ráðuneyti og opinberar stofnanir á fyrsta mögulega fundi ráðsins. Afgreiðslu tillögunnar hafi verið frestað. Júlíus Vífill segist ætla að ganga á eftir svörum borgarstjóra við tillögunni.

Heimild: 17.02.16 Morgunblaðið