Börkur

Börkur Gunnarsson, varaborgarfulltrúi

Börkur Gunnarsson ólst upp í Breiðholtinu en hefur búið vítt og breitt um heiminn, til að mynda í tvö ár í Þýskalandi, sex ár í Tékklandi og rúm tvö ár í Mið-Austurlöndum. Hann býr einnig yfir fjölbreyttri starfsreynslu en hann hefur unnið í byggingavinnu, var eitt ár sjó og eyddi öðru í Bæjaralandi þar sem hann vann við kirsuberjauppskeru. Nú starfar hann hins vegar sem blaðamaður, rithöfundur og leikstjóri en hann er með BA í heimspeki og hefur lokið námi í kvikmyndaleikstjórn. Börkur var mikið í félagsmálum í skóla og leiddist fljótt út í stjórnmál en hann var orðinn varamaður í bæjarstjórn Garðabæjar rétt fyrir tvítugt. Hann var í stjórn SUS, ritstýrði SUS fréttum, var kosningastjóri þingmanna og að lokum kosningastjóri Sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir síðustu alþingiskosningar árið 2013. Eftir að hafa starfað á bakvið tjöldin tók Börkur þá skyndiákvörðun að taka þátt í prófkjöri enda hefur þátttaka í starfi Sjálfstæðisflokksins alltaf veitt honum ánægju. Börkur er í sambúð með Lindu Blöndal.