Halldór


Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Halldór á að baki mikla og fjölbreytta reynslu en hann fór að heiman aðeins 16 ára og hefur síðan þá starfað sem sjúkraflutningamaður, sjómaður, verið í björgunarsveit, starfað við vélavinnu og unnið í bókhaldi auk þess sem hann hefur rekið sitt eigið fyrirtæki, svo dæmi séu tekin. Eftir að hafa starfað sem bæjarstjóri Ísafjarðar frá 1998–2010 ákvað Halldór að skipta um vettvang. Hann flutti því til Reykjavíkur og lauk MBA-prófi og MS-prófi í mannauðsstjórnun. Á meðan á náminu stóð sinnti hann áfram formennsku hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en hann var kosinn formaður árið 2006 og endurkjörinn árið 2010. Líkt og starfsferill Halldórs sýnir fram á er hann maður framkvæmda og er óhræddur við að takast á við ný verkefni.

Áhugamál Halldórs eru útivist, fjallamennska og sérstaklega sjókajakróður og ferðalög um óbyggðir en hann lítur einnig á störf sín í sveitastjórn sem áhugamál. Halldór er fjölskyldumaður en hann er giftur Guðfinnu M. Hreiðarsdóttur sagnfræðingi og MA í menningarmiðlun og eiga þau þrjú börn en Halldór á einn son fyrir. Halldór fór út í pólitík af áhuga og þeirri vissu að hann gæti haft áhrif og náð fram breytingum til að bæta skilyrði borgaranna. Hann hefur einlægan áhuga á samfélags- og sveitarstjórnarmálum, skýra hugmyndafræði og mikla reynslu.

Halldór situr í borgarráði og forsætisnefnd.