Stefna

Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir frelsi hvers og eins, að hverjum og einum sé treyst til þess að velja það sem hann telji vera sér fyrir bestu.

Sjálfstæðisflokkurinn er frjálslyndur, opinn og umbótasinnaður stjórnmálaflokkur.  Sjálfstæðisflokkurinn vill styrkja og vernda einstaklinginn en jafnframt gæta þess að öryggisnet sé til staðar fyrir þá sem þurfa á hjálp að halda.

FJÁRMÁL & REKSTUR

Hagsmunir borgaranna verða alltaf hafðir að leiðarljósi í öllum ákvörðunum okkar. Við ætlum að sýna skynsemi í rekstri og forgangsraða, því það er þröngt í búi.

 • Minnkum álögur á fjölskyldur og lækkum skatta

Reykjavík er langstærsta sveitarfélag landsins. Höfuðborgarbúar eiga að njóta hagkvæmni stærðarinnar í rekstri sveitarfélagsins sem skilar sér í auknu ráðstöfunarfé fjölskyldna. Við ætlum að draga úr álögum á fjölskyldur og lækka skatta á kjörtímabilinu. Við ætlum að endurskoða gjaldskrár með það fyrir augum að sanngjörn gjöld séu á grunnþjónustu.

 • Lækkum skuldir borgarinnar

Skuldir borgarsjóðs hafa hækkað um 27% á kjörtímabilinu, þegar hækkun á landsvísu er 3% á sama tíma.  Þetta er þróun sem verður að stöðva. Við ætlum að ná niður skuldum borgarinnar enda eru þær langt yfir lögbundnum viðmiðum.

 • Aukum tekjur borgarinnar

Við ætlum að auka framboð lóða bæði til íbúa og atvinnulífs. Þannig löðum við að fólk og fyrirtæki sem skilar borgarsjóði auknum tekjum til að geta veitt Reykvíkingum betri þjónustu. Einfaldari reglur tengdar atvinnurekstri og almennar samgöngubætur skila auknum vexti og blómlegra mannlífi og þangað ætlum við.

 • Hagræðum í rekstri og aukum útboð

Reykjavíkurborg þarf ekki síður en önnur fyrirtæki og stofnanir að sýna ráðdeild og aðhald í rekstri.  Því er bráðnauðsynlegt fyrir borgina að lækka rekstrarkostnað og skuldir. Borgin á að einbeita sér að því að efla grunnþjónustu en sleppa gæluverkefnum. Gera eðlilegar kröfur til verkefna um kostnað og afrakstur, jafnt í yfirstjórn og almennum rekstri. Gera þarf kröfur um árangur og gegnsæja stjórnarhætti. Við ætlum að auka áherslu á útboð, sem gæti gefið fyrirtækjum í samkeppnisrekstri tækifæri til að taka að sér verkefni og skapa með því samanburð og samkeppni.

 • Sinnum viðhaldi eigna borgarinnar

Viðhaldi eigna hefur verið illa sinnt á kjörtímabilinu með þeim afleiðingum að uppsafnaður vandi er orðinn mikill. Við því verður að bregðast til að það sem á að vera eðlilegur viðhaldskostnaður breytist ekki í hreinan endurnýjunarkostnað með alvarlegum áhrifum á fjárhag borgarinnar.

 • Launamunur kynjanna er óviðunandi

Launamunur kynjanna er óviðunandi og er Reykjavíkurborg í kjörinni stöðu til þess að uppræta hann. Við munum útrýma launamuninum.

 • Nóturnar á netið

Við viljum að Reykvíkingar eigi greiða leið að stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og að þeir geti með auðveldum hætti séð hvernig borgin ráðstafar skattfé og hvernig ákvarðanir eru teknar innan borgarkerfisins. Með því að setja nóturnar (reikningana) á netið þá opnum við stjórnsýsluna enn frekar. Þannig færum við möguleika á eftirliti og aðhaldi til íbúanna sjálfra. Við munum jafnframt tryggja að ekki aðeins fundargerðir nefnda og ráða hjá borginni verði á netinu heldur líka fundargögn.

 

BORG Í SAMKEPPNI

Við ætlum að koma Reykjavík aftur í fyrsta sæti.  Reykjavík á að draga að sér fólk og fyrirtæki en á undanförnum árum hefur borgin að mörgu leyti glatað forystuhlutverki sínu meðal sveitarfélaga landsins. Mikilvægt er að efla samkeppnishæfni höfuðborgarinnar í alþjóðlegu samhengi.

Borg fyrir alla

Reykjavík þarf að bjóða upp á þjónustu og tækifæri sem laðar til sín fjölbreytt mannlíf. Hlúa þarf vel að öllum aldurs- og samfélagshópum.

 • Fjölbreytni í þjónustu

Tryggja þarf að íbúar hafi meira frelsi til að ráðstafa fjármagni sem borgin veitir þeim vegna mismunandi þjónustu. Fé þarf að fylgja þörf í mun meira mæli og um leið verður til meiri fjölbreytni og framboð af þjónustu sem hentar hverjum og einum. Þetta á jafnt við um dagvist barna, skólakerfið, þjónustu við aldraða, fatlaða og aðra borgarbúa, hvort sem þjónustan er veitt af borginni eða einkafyrirtæki.

 • Gæði og öryggi í þjónustu

Við viljum tryggja að sérhver borgarbúi fái betri  og skilvirkari þjónustu á öruggan hátt.Borgararnir verða að geta reitt sig á tímanlega og trygga þjónustu óháð því í hvaða hverfi þeir búa. Ekki síst á það við um aldraða og fatlaða; að þeir geti verið öryggir um þjónustu heim þegar á þarf að halda og tryggja þarf sveigjanlegri og skjótari inngrip. Gæta þarf að þjónusta standist allar gæðakröfur.

 • Meiri fjölbreytni í húsnæðismálum

Húsnæðisskortur í Reykjavík er mikill. Til að leysa vandann ætlum við að nýta þekkingu og drifkraft einkaaðila á markaði og ná þannig árangri hratt og vel. Reykjavíkurborg þarf að stuðla að því að í boði sé húsnæði við allra hæfi og þá bæði húsnæði í einkaeigu og til útleigu. Sérstaklega þarf að huga að þörfum ungs fólks og aldraðra sem nú býr við mikinn vanda og stundum algjört úrræðaleysi. Lausnin er að Reykjavíkurborg bjóði upp á nægt lóðaframboð og skynsamleg lóðagjöld. Þannig verður umhverfi fyrir einkaaðila til að svara eftirspurn einstaklinga.  Við ætlum að halda leiguverði samkeppnishæfu með sérstökum samningum við byggingaraðila, sem tryggja leiguverð til lengri tíma.

 • Einföld samskipti og skilvirk þjónusta

Þjónusta borgarinnar á að vera einföld og skilvirk. Með auknu gegnsæi færum við möguleika á eftirliti og aðhaldi til íbúanna sjálfra. Þjónusta borgarinnar þarf að miðast að því að gera samskipti einfaldari og almenna afgreiðslu skilvirkari. Auðvelda þarf upplýsingagjöf og  einfalda umsóknarferli. Leggja þarf áherslu á rafrænar lausnir og byggja upp gegnsætt og aðgengilegt stjórnkerfi.

 • Íbúasamráð

Við viljum auka íbúasamráð til muna, þannig að íbúar geti haft áhrif á þau mál sem standa þeim nærri. Við ætlum að beita íbúakosningum í ríkara mæli um stærri mál.

 • Mannlíf og lífsgleði

Við ætlum að efla fjölbreytileika atvinnu- og menntalífs í höfuðborg Íslands og gera hana að spennandi stað.Samkeppnishæfni borgarinnar byggir á fjölbreyttu og blómlegu mannlífi.  Við ætlum að efla menntakerfið og stuðla að fjölbreyttari atvinnutækifærum sem auka verðmætasköpun og grósku. Hvetja þarf ungt fólk til þess að láta að sér kveða og huga sérstaklega að þeim hópi sem skort hefur tækifæri á vinnumarkaði.  Einstaklingar þurfa að hafa tækifæri til að , byggja á styrkleikum og áhugasviði hvers og eins.

 

Samkeppni um fyrirtæki

Við ætlum að gera Reykjavík að fyrsta vali fyrirtækja og frumkvöðla.

 • Atvinnuskapandi Reykjavík

Við ætlum að stuðla að uppbyggingu og grósku í atvinnulífi borgarinnar. Borgin á að stuðla að myndun nýrra tækifæra í því skyni að fjölga störfum bæði í nýjum fyrirtækjum og þeim sem nú þegar eru starfandi. Skapa þarf eftirsóknarvert umhverfi fyrir atvinnulífið sem stenst samkeppni við borgir erlendis. Athafnalífið þarf að geta gengið að stöðugu og fyrirsjáanlegu umhverfi, þar sem unnt er að gera langtímaáætlanir.
Aukið lóðaframboð í vel skipulögðum hverfum með góðu aðgengi að þjónustu styður við  slíkan vöxt.

 • Frumkvöðlar og nýsköpun

Sérstaklega þarf að hlúa að nýsköpunarfyrirtækjum, auðvelda stofnun fyrirtækja og gefa frumkvöðlum svigrúm á upphafsstigum. Við munum taka sérstaklega vel á móti nýjum fyrirtækjum og hlusta á þarfir þeirra með það að markmiði að sem flest skjóti rótum hér í Reykjavík.

 • Aukin tækifæri og fjölbreyttari þjónusta

Fyrirtæki í samkeppnisrekstri veita opinberri þjónustu mikilvæga samkeppni sem nýtist íbúum.  Auka þarf tækifæri sjálfstætt starfandi aðila til að reka fyrirtæki á sviði grunnþjónustu, skóla og velferðar. Þannig má auka gæði þjónustu og nýta betur fjármagn. Um leið verða til aðstæður fyrir fjölbreyttari þjónustu sem mætir betur þörfum fólks.

 

UMHVERFI & SKIPULAG

Skipulag og umhverfi borgar er eitt helsta hagsmunamál íbúanna. Skipulagsmálin taka til alls hins manngerða umhverfis sem mótar umgjörð fyrir allt daglegt líf.  Það er því mikið undir um að vel takist til um þróun borgarinnar.

 • Fjölbreytt hverfi og fjölskylduvæn borg

Við viljum hafa fjölbreytt hverfi, þar sem sérkenni hvers hverfis fær að njóta sín.  Stuðla þarf að því að þjónusta þrífist í hverfunum og að íbúar hafi aðgengi að grænum svæðum sem við viljum vernda.  Íbúar geti notið náttúru og útivistar, göngu- og hjólaleiða og dregið verði úr umferðarhraða inni í hverfum. Þannig sköpum við  örugga, hreina, græna  og góða fjölskylduborg.

 • Sjálfbær borgarþróun

Uppbygging og góð nýting borgarlandsins er nauðsynleg og skilar betri nýtingu á þeim umferðarmannvirkjum sem fjárfest hefur verið í. Þétting byggðar þarf að eiga sér stað um alla borg. Við viljum byggja hvert hverfi upp fyrir sig til þess að mynda enn betri sjálfbær hverfi. Stuðla þarf að framboði fjölbreyttra húsagerða og búsetukosta á hverjum tíma, í þéttri byggð og í hefðbundnum íbúðarhverfum. Markmiðið er fallegri borg, heilbrigði og sjálfbærni.

 • Góðar samgöngur í grænni borg

Við leggjum áherslu á grænni, jákvæðari, skilvirkari og öruggari borg. Við viljum að fólk hafi raunverulegt val í samgöngum, hvort sem ferðamátinn er bíll, hjól, ganga eða almenningssamgöngur.

 • Umferðarflæði, loftgæði og öryggi

Mikilvægt er að leggja áherslu á að bæta flæði í umferðinni. Í Reykjavík myndast nú umferðarhnútar og flöskuhálsar á of mörgum stöðum og útblástur og mengun eru oft yfir heilbrigðismörkum. Úr þessu verður að bæta. Við munum setja það í forgang að ná góðu flæði en umferðaröryggið verður alltaf í fyrirrúmi. Hægt er að nota fjölbreyttar leiðir. Stýra þarf umferðarhraða, gera verður helstu leiðir greiðfærari og fækka tíðni bíla í lausagangi með tilheyrandi mengun, bæta verður við göngubrúm, hringtorgum, vistgötum og fjölga forgangsakreinum fyrir strætó. Við munum merkja gangbrautir eins og lög kveða á um en það hefur ekki verið gert.  Áfram verði unnið að því að draga úr notkun nagladekkja og áfram þarf að vinna að því að draga úr svifryki. Loftgæði og öryggi verða að vera í fyrirrúmi.

 • Strætó

Við ætlum að endurskoða leiðakerfi Strætó, finna staðsetningu fyrir skiptistöð sem mun fækka skiptingum. Það þarf að bæta tengingar milli hverfa til muna. Þá munum við betrumbæta strætóskýli á fjölmennustu stoppistöðvum svo þær verði raunverulegt skjól gegn veðri og vindum.. Við munum lengja þjónustutíma Strætó.

 • Sorphirða

Við viljum auka valmöguleika í sorphirðu enn frekar. Við ætlum að endurskoða 15 metra regluna.

 • Eðlileg þjónusta aftur á dagskrá – hreinsun og snjómokstur

Við ætlum að gera hreinsun borgarinnar að forgangsmáli á ný. Við ætlum að slá grasið, við ætlum að ná í gömul jólatré, við ætlum að bæta snjómokstur í hverfum borgarinnar og við ætlum að fegra Reykjavík.

 • Reykjavíkurflugvöllur

Flugvöllurinn er í Vatnsmýri og verður þar um fyrirsjáanlega framtíð. Nefnd um staðarval er að störfum og mun skila af sér á þessu ári.  Við stöndum föst á því að innanlandsflug fari ekki til Keflavíkur.  Við teljum að virkja beri íbúalýðræðið miklu meira í stórum málum og munum berjast fyrir því að borgarbúar komi að endanlegri ákvarðanatöku um flugvöllinn í íbúakosningum.

 • Reykjavík í forgang

Við viljum setja Sundabrautina á dagskrá og hefja undirbúning sem fyrst til að minnka álagið á helstu stofnbrautirnar. Tilkoma Sundabrautar mun verða mikil samgöngubót og auka nýtingarmöguleika Álfsness, Esjumela og Geldinganess. Til þess að það sé hægt þarf að taka upp samninginn við ríkið um frestun stórra vegaframkvæmda í Reykjavík.

 • Fyrsta umhverfisvottaða höfuðborg í heimi

Við viljum vinna að umhverfisvottun fyrir Reykjavík til að draga fram hreinleika og sérstöðu.

 

SKÓLI & FRÍSTUND

Nýja hugsun þarf í skólamálum. Ungt fólk í Reykjavík á að hafa tækifæri til að skara fram úr og öðlast þá hæfni og getu sem þarf í nútímasamfélagi. Við eigum ekki að sætta okkur við að allt of hátt hlutfall barna geti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla.

Skólakerfið þarf að vera sveigjanlegt og sjálfstætt til að bregðast við breyttum tímum og ólíkum aðstæðum og standast nútímakröfur. Það þarf að auka aðkomu og áhrif foreldra að skólamálum. Mikilvægt er að skólarnir hafi samræmd og mælanleg markmið og að reglulega sé upplýst um hvernig miði, svo hægt sé að fylgjast með árangri skólanna. Svo þarf að auka hreyfingu og íþróttastarf á skólatíma.

 • Grunnfærni tryggð í lestri og stærðfræði

Kennsluhættir í grunnskólum taki mið af niðurstöðum menntarannsókna eins og kostur er. Leggja verður áherslu á grunnfærni yngstu barnanna í lestri og stærðfræði og tryggja að þau njóti þeirrar þjálfunar sem nauðsynleg er fyrir árangur á seinni stigum. Það er engan veginn er ásættanlegt að 30% drengja og 12% stúlkna geti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla. Með aukinni áherslu á grunnfærni og þjálfun má ná nauðsynlegum árangri sem leiða myndi  til minna brottfalls og minni þörf fyrir sérþjónustu. Efla þarf námsráðgjöf í grunnskólum og aðstoða nemendur við að taka sín næstu skref.

 • Eðlileg upplýsingagjöf um skólastarfið aukin

Gæðamat á skólastarfi verði eflt með markvissum samanburði innanlands og erlendis. Horfa þarf til fleiri þátta en færni nemenda svo sem framfara nemenda á hverjum tíma. Lögð er áhersla á mikilvægi rannsókna á sviði kennslu og náms sem nýttar verði til framþróunar í skólastarfi, auka þarf eftirfylgni með niðurstöðum rannsókna. Samræmdir mælikvarðar til viðmiðunar þurfa að vera aðgengilegir öllum svo hægt sé að meta árangur skóla og skólastiga.

 • Endurskipulag vinnuumhverfis – stórátaks er þörf

Stórátak þarf að gera svo að tækjabúnaður í skólum endurspegli nútímakröfur. Upplýsingatækni er vannýtt í skólastarfi, með rafrænum kennsluaðferðum má stórauka svigrúm til að mæta betur þörfum nemenda hvort sem þeir þurfa meiri hjálp eða meira námsefni. Vinna þarf að endurskipulagningu vinnuumhverfis í skólum með það að markmiði að sérfræðiþekking starfsmanna nýtist sem best nemendum til hagsbóta. Efla þarf starfsþróun og endurmenntun stjórnenda og starfsmanna.

 • Sjálfstæði í stað miðstýringar

Við ætlum að stuðla að auknu sjálfstæði grunnskólanna og draga úr miðstýringu. Mikilvægt er að valfrelsi, sveigjanleiki, fjölbreytni, ábyrgð og hagkvæmni sé í fyrirrúmi í skólastarfi. Foreldrar og nemendurnir sjálfir eiga að hafa val um skóla enda fylgir fjárframlag nemanda hvort sem um er að ræða opinberan eða sjálfstætt starfandi skóla. Auka þarf svigrúm skólastjórnenda til að umbuna starfsmönnum og gæta þess að kjarasamningar takmarki ekki svigrúm í skólastarfi. Endurmeta þarf reynslu skóla án aðgreiningar og bæta valkosti þannig að foreldrar geti valið bestu leiðina fyrir börnin sín. Við ætlum að beita okkur fyrir aukinni sérstöðu og sérhæfingu einstakra skóla.

 • Þjónustutrygging/Leikskólar og dagforeldrar

Við munum bjóða fjölbreytt úrræði frá því að fæðingarorlofi sleppir þar til barn kemst á leikskóla. Það gerum við með öflugri þjónustu dagforeldra, ungbarnaleikskóla og ungbarnadeildum á leikskólum. Styrkja þarf dagforeldra faglega og hvetja til samstarfs þeirra á milli.  Við viljum að foreldrar hafi frelsi til að velja það sem börnunum er fyrir bestu hvort sem það er dagforeldri, ungbarnaleikskóli eða t.d. nærfjölskylda. Við ætlum að koma á þjónustutryggingu til að jafna kostnað foreldra og auka valfrelsi.

 • Sveigjanleiki í námi

Við ætlum að auka sveigjanleika á milli skólastiga, til þess að geta betur mætt þörfum einstakra barna. Betri tenging verður að vera á milli skólastiga allt frá leikskóla til framhaldsskóla. Námsleiðum í efri bekkjum grunnskóla á að fjölga. Nemendum á að gefast kostur á að stunda framhaldsskólaáfanga samhliða grunnskólanáminu. Það á að taka 5 ára bekk upp sem tilraunaverkefni.

 • Samstarf

Við viljum auka umburðarlyndi, virðingu og víðsýni í skólakerfinu og endurmeta reglur um samskipti við frjáls félagasamtök í samráði við foreldra, nemendur og skólasamfélagið. Þá þarf að koma á samvinnu við atvinnulífið, framhaldsskóla og háskóla í þeim tilgangi að kynna fyrir nemendum ólíkar námsleiðir og atvinnutækifæri, sérstaklega í iðn- og tæknigeiranum.

 • Skapandi skóli

Við viljum aukið vægi tónlistar og annarra skapandi greina í skólunum og samþætta betur starf skólanna við sjálfstæðu listaskólana í borginni. Jafnframt skoða kosti þess að taka fyrr upp kennslu í grafískri hönnun, forritun og fleiru í samvinnu við sjálfstæða skóla.

 • Frístundin er mikilvægur þáttur í skólastarfinu

Við viljum gefa frístundinni meira vægi í skóladegi barnsins og fara að fordæmi Norðlingaskóla í því.

 

MENNING- OG FERÐAMÁL

Menningartengd starfsemi fer ört stækkandi í Reykjavík og er hún eitt helsta aðdráttarafl erlendra ferðamanna. Það er mikilvægt að við stuðlum að metnaðarfullu lista- og menningarlífi í borginni og gerum menningu okkar sem sýnilegasta fyrir borgarbúa og ferðamenn.

 • Öflugt menningarlíf um alla borg

Við ætlum að stuðla að metnaðarfullu lista- og menningarlífi í borginni. Reykjavík á mikinn menningararf sem er rétt að gera sýnilegri út um alla borg, hvort sem það er í opinberum byggingum, skólum eða úti í hverfum borgarinnar. Við eigum að fagna fjölbreytileikanum og blanda saman sögu og sérkennum Reykjavíkur með nútímamenningu okkar. Við viljum efla menningarhátíðir í Reykjavík enn frekar. Til dæmis með því að gera Menningarnótt að Menningarhelgi, gera Barnamenningarhátíð að Barna- og Unglingamenningarhátíð með aðkomu ungmenna að skipulagningu og með því að koma á fót Bókmenntaborginni Reykjavík með Bókamessu.

 • Menningin hefur mikið aðdráttarafl

Menningarlífið er ein helsta ástæða þess að erlendir ferðamenn koma í æ meira mæli til Íslands. Stuðningur við menningarlífið styður ekki bara við iðandi mannlíf heldur stuðlar að enn frekari ferðamennsku. Halda verður áfram að vinna að því að auka tekjur af ferðamönnum í Reykjavík allt árið. Það er mikilvægt að fá aðila frá menningarlífinu og ferðamannaiðnaðnum að borðinu og sjá hvar tækifærin liggja.

 • Móttaka ferðamanna

Það skiptir máli að samspil borgar og ferðaþjónustu sé sem best. Við verðum að tryggja að Reykjavík geti staðið undir nafnbótinni Ráðstefnuborgin Reykjavík, því þarf að kynna aðstöðu og þjónustu fyrir hugsanlegum ráðstefnugestum.

 

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDAMÁL

Það er ljóst að forvarnargildi íþrótta- og tómstundastarfs er mikið. Að taka þátt í slíku starfi eykur á félagsfærni barna og leggur grunn að bættri heilsu í framtíðinni. Við viljum leggja mikla áherslu á að tryggja gott íþrótta- og tómstundastarf í Reykjavík.

 • Efling tómstundar

Við ætlum að hækka frístundastyrkinn upp í 40 þúsund krónur með hverju barni strax í upphafi kjörtímabils. Það er öllum til bóta að börn og unglingar stundi skipulagt íþrótta- og tómstundastarf. Borgin á að stuðla og hlúa að fjölbreyttu tómstundarstarfi þannig að hver einstaklingur geti fundið tómstund á sínu áhugasviði. Borgin á að hvetja markvisst til tómstundaiðkunar því það hefur jákvæð áhrif á samfélagið, skólastarfið og bætir heilsu barna og unglinga.

 • Samþætting skóla og tómstunda

Við ætlum að gera börnum auðvelt fyrir að stunda sína tómstundaiðkun með því að samþætta skólann, frístundir og íþróttir enn betur en gert er í dag.Við vitum að mikið rót getur verið á degi barna með skutli á milli æfinga og skóla. Við viljum koma á enn betra samstarfi skóla og tómstundafélaga, jafnvel með því að tómstundafélögin geti nýtt aðstöðu í skólum borgarinnar.

 • Aðstaða til iðkunar

Það er mikilvægt að til séu svæði fyrir börn að stunda leik fyrir utan skipulögð svæði íþróttafélaga og því viljum við bæta aðstöðuna fyrir frjálsan leik á mörgum stöðum í borginni.

 • Sundlaugar Reykjavíkur

Við viljum auka þjónustuna í sundlaugum Reykjavíkur með því að lengja aftur opnunartímann, færa aldursmörk þeirra sem njóta fríðinda vegna aldurs aftur niður úr 70 árum í 67 ára. Jafnframt viljum við hraða uppbyggingu sundlauga í Úlfarsárdal og í Fossvogi.

 

VELFERÐ

Velferð borgaranna, ekki síst þeirra sem eiga undir högg að sækja, er eitt helsta og mikilvægasta verkefni Reykjavíkurborgar. Til þess að velferðarkerfið sé skilvirkt má það ekki vera of þungt í vöfum, það þarf að vera sniðið að þörfum hvers og eins. Líkt og á öðrum sviðum verður þeirri reglu fylgt, að fé fylgi þörf. Þannig geti notendur þjónustu sjálfir valið að miklu leyti hvernig þörfum þeirra verði best sinnt, sem mun skapa mun meiri sveigjanleika í kerfinu og eyða biðlistum.

 • Verjum velferðarkerfið

Íbúar Reykjavíkur greiða mun hærri gjöld á hvern íbúa en gerist annars staðar á landinu vegna fjárhagsaðstoðar. Hver íbúi í Reykjavík greiðir 440% meira vegna fjárhagsaðstoðar en hver íbúi á Akureyri, munurinn er 250% milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Stærsti hópur þeirra sem þarf á fjárhagsaðstoð að halda er fólk undir fertugu eða um 70% bótaþega, ungt fólk 18 – 25 ára er þar mjög stór hópur. Eitt helsta hagsmunamálið er að gæta þess að næg skilvirkni sé í velferðarkerfinu þannig að byggt sé á þeirri meginreglu að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Réttindi og skyldur þurfa að fara saman í meira mæli, sá sem fær fjárhagsaðstoð á að hafa tækifæri á að vera virkur þátttakandi í samfélaginu. Mjög mikilvægt er að koma í veg fyrir að enn meiri velferðarvandi skapist, auka þarf skilvirkni svo nægt svigrúm sé til að veita þeim þjónustu sem á þurfa að halda.

 • Biðlistana burt

Við viljum gera fólki kleift að fá þjónustu frá einkaaðilum þar sem það hentar, t.d. við sálfræðiþjónustu, heimaþjónustu og fleira, enda sé hún viðurkennd og nauðsynleg. Þannig má brúa bil á milli þarfar og framboðs; félagsþjónustu og einkaframtaks.

 • Virkni er velferð

Við viljum gera meira en að veita fjárhagsaðstoð til þeirra, sem á þurfa að halda. Við ætlum að virkja þá eftir því sem áhugi og aðföng eru til, til að koma að margvíslegum samfélagsverkefnum á vegum borgarinnar. Markmiðið er að þeir hætti ekki að vera virkir þátttakendur í samfélaginu, heldur öðlist nýja reynslu og sjálfstraust, sem fylgir því að vera til gagns. Jafnframt er mikilvægt að í boði séu tímabundin úrræði fyrir fólk, sem vill komast út á vinnumarkaðinn.

 • Fatlaðir

Við ætlum að láta fé fylgja þörf í málefnum fatlaðra. Í valinu felst vald og fólk á að hafa frelsi til að velja hver sinni því og með hvaða hætti, eftir því sem við verður komið. Reykjavíkurborg á áfram að styðja við tilraunaverkefni NPA (Notendastýrð Persónuleg Aðstoð), en borgin getur ekki ein staðið undir kostnaðinum, sem er umtalsverður. Við viljum að NPA verði verkefni borgarinnar í samkomulagi við ríkið.

 • Aldraðir

Við ætlum að mæta þjónustuþörfinni hratt og örugglega og veita eldri borgurum þjónustutryggingu. Fé fylgi þörf og aldraðir eiga að geta valið um hvar þeir sækja þjónustu. Við ætlum að bæta heimaþjónustu með því að bjóða hana út og sníða hana betur að  þörfum hvers og eins. Við munum bjóða upp á  aukið val í matarsendingum til aldraðra.

 • Skóli og velferð

Við ætlum að minnka brottfall úr skólum með því að auka grunnfærni á yngsta stigi, því leiða má líkur að því að með því að minnka brottfall úr skólum sé komið í veg fyrir mörg velferðarvandamál. Við ætlum að hvetja til bættrar lýðheilsu í borginni í samvinnu við skólum borgarinnar sem og á öðrum vettvangi.

 

Húsnæðismál

Neyðarástand ríkir á fasteignamarkaðinum í Reykjavík. Úthlutun á lóðum hefur á undanförnum árum ekki dugað til að svara eftirspurn. Þessu þarf að breyta strax. Hlutverk Reykjavíkurborgar er að vera með hagstæðari lóða- og gatnagerðargjöld en bjóðast í dag. Það á að stuðla að framboði á ódýrara húsnæði. Við viljum gefa fólki val um hvort það kaupir eða leigir. Reykjavíkurborg á að tryggja að grundvöllur skapist fyrir öflugan leigumarkað. Einkaaðilar sjái hag sinn í því að byggja upp góðan og traustan leigumarkað í borginni. Lausn okkar Sjálfstæðismanna á þessu vandamáli er einföld.

 • Nægt lóðaframboð

Við ætlum að tryggja nægt framboð af lóðum. Þannig fjölgar íbúðum á markaði sem leiðir af sér meiri samkeppni og lægra verð til neytenda.

 • Öruggur leigumarkaður

Við ætlum að bjóða út lóðir fyrir leiguíbúðir til aðila sem vilja hasla sér völl á leigumarkaði. Gegn hagstæðasta boði um leiguverð fá slíkir aðilar samning við Reykjavíkurborg um að greiða niður lóðaverð á 25 árum gegn því að leiguverð verði sanngjarnt á tímabilinu. Með því tryggjum við framboð á langtíma leiguhúsnæði í Reykjavík.

 • Gæði í forgang

Þrátt fyrir að mikil áhersla sé á að ná niður byggingarkostnaði má ekki minnka gæðakröfur.

 • Einföldum gjaldskrár

Við ætlum að gera það hagstæðara að byggja minni íbúðir með því að breyta gjaldskrám og hætta með fast gjald á íbúð. Í stað þess taki gjaldskrá mið af fermetrafjölda íbúða.

 • Skilvirk þjónusta

Auðveldum aðgang að upplýsingum, einföldum umsóknarferlið og gerum afgreiðslu hraðari og skilvirkari.

 • Tryggjum fólki val

Fólk á að hafa val um hvort það vilji kaupa eða leigja og viljum við gera Reykjavík að fyrsta vali fólks þegar að því kemur. Það þurfa að vera fjölbreyttir valmöguleikar, hvort sem fólk vill kaupa íbúð eða hús. Valið á að vera í Reykjavík.